Grænlendingasaga og Eríkssaga rauða segja frá því að norrænir menn settust að á Grænlandi og hvernig þeir uppgötvuðu nýjar lendur í Ameríku og reyndu að setjast þar að. Þær segja frá samskiptum norrænna manna við innfædda og frá fyrsta Evrópumanninum sem fæddist í vesturheimi. Fornleifarannsóknir nútímans benda til þess að þessar sögur byggi á staðreyndum.
Fyrir um þúsund árum sigldu norrænir menn vestur á bóginn frá Íslandi. Eiríkur rauði fór til Grænlands, fyrstur norrænna manna og þegar sonur hans, Leifur heppni, óx úr grasi sigldi hann í vesturátt frá Grænlandi og fann Ameríku, 500 árum á undan Kólumbusi.
Á efri hæð Leifsbúðar er sagan sögð á lifandi hátt, með hljóðleiðsögn, sem gesturinn hlustar á á leið sinni um sýninguna. Hún samanstendur af kortum, gagnvirku efni og listaverkum sem draga fram dramatískan og spennandi söguþráð.
Fyrsti hluti sýningarinnar fjallar um kortlagningu sögusviðsins og um fornleifarannsóknir sem styðja við sögurnar. Síðari hluti sýningarinnar segir frá sögunum sjálfum og dregur fram persónurnar sem þær geyma.
Hljóðleiðsögnin er á íslensku, ensku, þýsku og frönsku.