Í Dölunum er hægt að njóta náttúrufegurðar, fjarri ys og þys borgarlífsins, njóta dýralífs, fugla og nálægðar við ósnortna náttúru. Fjöll, dalir og fossar eru við hvert fótmál, fjölbreytt gróðurfar og fallegar strendur eru innblástur fyrir gesti.
Heimsókn að Eiríksstöðum: Þar er hægt að skoða langhús byggt á fornleifauppgreftri bæjar Eiríks rauða, kynnast lífi landnámsmanna og spjalla við fróða leiðsögumenn í lifandi leiðsögn.
Gullni söguhringurinn: Á Fellsströnd og Skarðsströnd eru söguslóðir nokkurra Íslendingasagna og þar hefur verið komið fyrir söguskiltum, sem segja frá þekktum landnámsmönnum og Sturlu Þórðarsyni sagnameistara, sem bjó á Staðarhóli. Hann skrifaði samtímasögur Sturlungu, þar sem segir frá borgarastyrjöldinni sem geisaði á Íslandi á 13. öld.
Ólafsdalur er merkur sögustaður, en þar var fyrsti landbúnaðarskóli Íslands starfræktur frá 1880 – 1907. Mikið af húsakosti skólans hefur verið endurnýjað og er spennandi að heimsækja. Stór fornleifafundur er í rannsókn í Ólafsdal, en þar fannst skáli frá landnámsöld og rústir fleiri bygginga.
Guðrúnarlaug á Laugum í Sælingsdal er náttúrulaug sem byggð er í anda landsnámsmanna og nálægt þeim stað sem Guðrún Ósvífursdóttir, helsta sögupersóna Laxdælu baðaði sig fyrr á öldum. Laugin er heit og er opin almenningi.
Gönguleiðir: Merktar gönguleiðir eru á Laugum í Sælingsdal, skammt frá Guðrúnarlaug, sem geta hentað bæði til léttari og erfiðari gönguferða.
Hestaleigan Dalahestar er starfrækt í Búðardal, en þar er hægt að njóta samvista við hesta, ríða út og skoða fallegt landslag í nágrenni Búðardals.
Á Erpsstöðum er hægt að heimsækja dýr, kynnast heimavinnslu á ís, ostum og skyri og smakka afurðir beint frá býli.
Í Hólum er starfræktur húsdýragarður með öllum helstu húsdýrunum, auk nokkurra villtra dýra sem fengið hafa skjól þar.